Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Arnar Gauti lifir og hrærist í tísku- og hönnunarheimi
Laugardagur 11. desember 2021 kl. 06:10

Arnar Gauti lifir og hrærist í tísku- og hönnunarheimi

Arnar Gauti Sverrisson er uppalinn í Keflavík en flutti ungur til Reykjavíkur þar sem hann hefur lifað og starfað í tísku- og hönnunarheiminum í rúm 30 ár. Hann hefur komið víða við og skilið eftir sig vandað handbragð, m.a. á hans gömlu heimaslóðum, á Suðurnesjum.

Verkefni á Suðurnesjum

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Það sem hefur staðið upp úr hjá mér með verkefni í Reykjanesbæ er tvímælalaust Library bistro í Radisson-hótelinu. Það var gaman að koma til baka og gera þetta verkefni. Bergþóra og Bjarni gáfu mér frjálsar hendur við hönnunin og met ég það mikils. Með þeim hætti nær líka sýn mín sem hönnuður alla leið,“ segir Arnar Gauti.

„Núna er ég að byggja í Vogunum fjölbýlishús í samstarfi við tvo aðra aðila í gegnum fyrirtæki sem heitir Smartbyggð. Við erum að reisa tíu íbúða fjölbýlishús og þetta er hönnunarsamstarfs Kristins Ragnarssonar arkitekts og síðan vörumerkis míns, „Sir Arnar Gauti“. Pælingin með þetta hús og íbúðir er að upplifunin verði svolítið öðruvísi en gengur og gerist. Við komum til með að skila af okkur fullhönnuðum íbúðum sem m.a. verða með fullkomnu loftræstikerfi, liti frá minni eigin málingarlínu frá Húsasmiðjunni og síðan hönnun og innréttingum í samræmi við þann stíl sem ég hef tileinkað mér í gegnum tíðina.“ Fyrsta afhending íbúða verður síðan í febrúar á næsta ári. „Síðan er aldrei að vita hvað þetta verkefni tekur mig lengra“ segir Arnar Gauti og kímir.

Sjónvarpsferillinn

Arnar Gauti er með lífstílþáttinn „Sir Arnar Gauti“ á Hringbraut og hefur hann náð að festa sig vel í sessi með um 40 þúsund áhorf hver þáttur. „Ég byrjaði með þennan þátt fyrir rúmu ári síðan og fjórða serían fer í loftið á nýja ári.“

Þetta eru ekki fyrstu skref Arnars Gauta á sjónvarpsskjánum, hann tók við sjónvarpsþáttum „Innlit – útlit“ sem var sýndur á Skjá 1 á sínum tíma af Völu Matt ásamt þeim Þórunni Högnadóttur og Nadiu Banine og voru þau með einn vinsælasta sjónvarpsþáttinn á þeim tíma í þrjú ár. Þetta var magnaður tími og skemmtilegt verkefni, alltaf mikið líf og fjör í kringum þáttinn.

Það er gaman að fá að hitta og kynnast ólíku og hæfileikaríku fólki sem er að gera ótrúlega hluti og fá að fjalla um það í sjónvarpinu, hvort sem það eru listamenn, kokkar eða hvað það er. Þetta er skemmtilegasti hlutinn við sjónvarpið, þessi persónulegu tengsl og fá að skyggnast inn í líf þessa fólks.“

Áhugi á tísku verður að starfi

„Ég á móður minni mikið að þakka að hafa haft tækifæri á því að komast á þennan stað sem ég er á núna. Ég hafði alltaf áhuga á tísku og þegar ég var um sautján ára gamall þá tók ég rútuna til Reykjavíkur þar sem ég vann í tískufataverslun og móðir mín sótti mig síðan um kvöldið á hverjum virkum degi.“

Síðar flutti Arnar Gauti til Reykjavíkur þar sem hann hefur búið og starfað síðan, í um 30 ár í hinum ýmsu tískufataverslunum. Hann færði sig síðan til og fór að vinna í húsgagnaversluninni EXÓ þar sem hann kynntist ýmsum efnum, húsgögnum og hönnun sem varð til þess að áhugi kviknaði á innanhúshönnun. „Ég bý að mikilli reynslu úr tískuheiminum, hef ferðast og séð mikið og er mjög sjálfsöruggur í því sem ég tek mér fyrir hendur og er ekki smeykur við að fara mínar leiðir í hönnun. Þetta hefur skilað mér ákveðnu orðspori og vörumerkinu – Sir Arnar Gauti.“

Sir Arnar Gauti verður til

Vörumerkið varð til þegar Arnar Gauti sett af stað lífsstílstengda heimasíðu og blogg um tísku og hönnun. „Ég vildi að heimasíðan hefði ákveðið kikk og þess vegna varð til nafnið Sir Arnar Gauti. Ástæðan fyrir nafninu er þessi breska tenging sem er svo sterk hjá mér í hönnun og tísku, t.d. Burberry og Land Rover. Nafnið kemur í raun frá vinum mínum sem höfðu kallaði mig þetta í gríni.“

Þegar ég bað Arnar Gauta um að rifja upp eftirminnileg atvik á sínum langa ferli þá kom upp í hugann hjá honum opnun tískuverslunar á Norðurlöndum en á sínum tíma var hann fyrstur til að flytja inn til Íslands tískuvörur frá Burberry í London. „Það var eftirminnilegt fyrir mig þegar ég var beðinn um að opna fyrstu flaggskipsbúðina hjá Burberry á Norðurlöndum, þá rétt um 30 ára gamall. Þetta var mikill heiður fyrir litla strákinn úr Keflavík.“

Það er margt í farvatninu hjá Arnari Gauta en auk fyrrgreindra verkefna þá voru þau hjónin að kaupa helmingshlut í tískuvöruversluninni Kroll í Kringlunni þannig að Arnar og konan hans Berglind eru komin aftur í tískubransann.

Fyrst og fremst fjölskyldufaðir

„Fyrst og fremst er ég faðir, ég og konan mín eignuðumst barn á síðasta ári og bæði áttum við tvö börn fyrir þannig að ég er ríkur maður og líf mitt snýst aðallega um þau.“

Arnar Gauti er mikið jólabarn og finnst tíminn í desember og fyrir jólin skemmtilegur og þá helst í faðmi fjölskyldunnar. „Ég held mikið upp á jólin, sérstaklega núna með stærri fjölskyldu. Fyrir þar síðustu jól fórum við úr bænum þegar Berglind, konan mín, var ófrísk af Ivý, settum litla jólatréð okkar og pakkana í bílinn og keyrðum til Flúða þar sem við áttum notalega jóla- og fjölskyldustund í sumarbústað. Það var mikill léttir að keyra úr bænum á Þorláksmessu og eyða jólunum í fallegu umhverfi Flúða þar sem allt var þakið í snjó.“

Arnar Gauti og Jón Gunnar Geirdal vinur hans endurgerðu veitingasalinn á Park Inn hótelinu í Keflavík - og heitir nú Library.